<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, mars 18, 2004

Hver er sinnar gæfu smiður!

Já ég hef ekki verið sú allra duglegasta að láta vita af mér undanfarið, enda farin að efast um að einhver lesi bloggið mitt, nema Ísey. Hún er allavega sú eina sem hefur haft fyrir því að skilja eftir sig ummerki hérna hjá mér! En hvað um það, ef að ég næ að skemmta einhverjum með tilvist minni, þá hefur hún vonandi tilgang ;)

Það hefur ekki ýkja margt á daga mína drifið frá því ég gaf mér tíma til að deila með ykkur tilveru minni síðast. Afmælispartýið var nú ekkert það allra skemmtilegasta, en fínt samt.
Ég er komin í drykkjubann núna og hef ekki hugsað mér að drekka aftur fyrr en að páskaháíðin gengur í garð (með fyrirvara um breytingar!). Síðustu helgi eyddi ég í sveitasælunni hjá ömmu minni og afa. Ég bauð Michi með, og við áttum þarna frábæra helgi langt frá allri siðmenningu. Það er nauðsynlegt að gera þetta annað slagið.

Móðir hafði, eins og svo oft áður, allt á hornum sér í gærmorgun og tók það auðvitað út á elsku litlu einkadóttur sinni sem þráði ekkert heitar en að fá að sofa í friði. Ég ákvað þá að taka til minna ráða eftir að hún fór í vinnuna, og gera það sem ég hefði átt að vera búin að gera fyrir löngu. Koma upp búnaði til þess gerðum að læsa vistarverum mínum! Þær eru staðsettar í eldri hluta heimili míns, sem er ansi gamall, og er hurðin sennilega frá því í fyrri heimsstyrjöldinni. Mér þykir voða vænt um hurðina mína og tími alls ekki að skipta henni út fyrir nýja, en gallin á henni er bara sá að það er ekki hægt að læsa henni. Þessi galli hefur oft komið sér frekar illa, en nú hef ég kippt þessu í liðinn. Eftir að móðir yfirgaf heimilið og hélt til vinnu sinnar var komið að mér að láta hendur standa fram úr ermum. Ég fór í vettvangsferð í þvottarhúsið og fann þar þessa prýðisspýtu sem myndi henta vel því hlutverki sem ég ætlaði henni. Hún var heldur stór svo ég þurfti að saga af henni kubb af þeirri stærð sem hentaði. Þar á eftir náði ég mér í hamar og nagla og hófst handa við að útbúa læsinguna (hún var hugsuð þannig að ég gæti snúið kubbnum fyrir hurðina og læst þannig). Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig! Þegar fyrsti naglinn var nánast kominn í gegnum kubbinn, tók hann upp á því að klofna! Þetta reyndi á mína litlu þolinmæði og fengu nokkur vel valin orð að fjúka. En þó svo að þolinmæðin hafi ekki fylgt mér í þennan heim fékk ég (sem betur fer) þeim mun stærri skammt af þrjósku, og hennar vegna get ég læst herberginu mínu núna :) Eftir að kubburinn hafði klofnað var lítið annað að gera en að saga nýjan og halda áfram verkinu. Að þessu sinni ákvað ég að borvélin hans föður míns myndi henta betur til þess að gera gat á kubbinn, og viti menn, það reyndist rétt. Eftir að hafa borað gatið hélt ég nú að eftirleikurinn yrði auðveldur. Bara að skella kubbnum á hurðarkarminn og festa naglann. Ekki mikið mál. En eitt yfirsást mér! Það vildi nefnilega svo skemmtilega til að við hliðina á áætluðum stað læsingarinnar er staðsett mín aðal rafmagnsinnstunga. Ég sá engin tengsl þarna á milli fyrr en að ég ætlaði mér að reka "smiðshöggið" á þetta meistaraverk mitt..þá búhhmm! Þvílíkur hvellur og snúran skaust úr innstungunni af miklum krafti um leið og endrsýndur þáttur af "The Amazing Race" hvarf af skjánum (tengsl?). Ég verð að játa að þessi atburður sló mig, ekki síður en rafmagnið, örlítið út af laginu, en uppgjöf? Aldrei! Eftir langa mæðu tókst mér að draga naglann hæfilega mikið út og koma snúrunni á sinn stað :) Núna ríkir því algjör friður á mínu yfirráðasvæði og óboðnir gestir tilheyra fortíðinni. Ég er að velta því fyrir mér hvort að ég gæti hugsanlega látið gott af mér leiða og komið á heimsfriði með þessu móti í nánustu framtíð? Það væri óskandi....

Þangað til næst.....

Þórunn þúsundþjalasmiður
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?