<$BlogRSDURL$>

mánudagur, mars 29, 2004

Helgin...

....var ekkert nema snilld!! Menningarferðin gaf ferðinni í fyrra lítið eftir og var ekkert nema taumlaus gleði! Ferðin hófst reyndar á rútuferð sem var heldur slöpp miðað við fyrri rútuferðir sem ég hef farið í með ME. Það varð strax bláköld staðreynd að Svenni stórvinur minn og félagi kæmi ekki til með að þeysast með okkur um landið, en í staðinn var maður að nafni Ragnar mættur til verksins. Ég sá mér ekki annan kost færan en að eiga við hann nokkur orð áður en lagt var af stað og sagði honum eins og var, að hann væri undir mikilli pressu frá okkur farþegunum því að fáir gætu staðist samanburð við öðlinginn Svenna áfallalaust. Ragnar tók vel í þetta og skildum við sátt með handabandi, sem innsiglaði þann samning okkar að ég yrði gerð að pissustoppastjóra ferðarinnar og hann mundi gera sitt besta til þess að standast gríðarlegar kröfur me-inga um skemmtilegan bílstjóra. Ragnar stóðst prófið með prýði og var hann almennilegheitin uppmáluð.
Þegar við vorum næstum komin á áfangastað skellti ég mér enn einu sinni fram í "kokkpytt" í þeim tilgangi að biðja þennan ágæts félaga minn um að henda mér Írisi og Ingunni (sem btw skellti sér í annað kokktytt í öðrum tilgangi síðar um kvöldið ;) út í Kaldbakskoti þar sem sumarbústaðurinn sem við gistum í er staðsettur. Ragnar sagði mér að það væri minnsta málið og beygði skömmu síðar niður afleggjarann með það í huga að skilja okkur eftir. En þá kom babb í bátinn (eða rútuna?)! Ragnar misreiknaði sig eitthvað þegar hann hugðist snúa við, og tókst með naumindum að festa rútuna í eina skaflinum í þrjátíu kílómetra radíus! Þegar þarna var komið við sögu vorum við stöllur ekki beint vinsælustu nemendur skólans, en við létum það ekki á okkur fá, drifum okkur heim í bústað og sendum hlýja strauma úr heita pottinum til samnemenda okkar, Ragnars (sem átti í raun sök á þessu krakkar mínir, ég gerði honum það alveg ljóst og ekki neitaði hann!), Árna Óla og síðast en ekki síst hins funheita þokkaguðs Richard Middleton.

Bústaðurinn reyndist hinn allra þokkalegasti og vel hæfur til partýhalds. Enda nýttu flestir sér það, ef ekki allir þeir sem staddir voru á norðausturhorni Íslands þessa helgina! Það voru reyndar ekki svo ýkja margir þarna framan af, en eftir að líða tók á kvöldið og rútan losnaði fór heldur betur að fjölga! Úr varð heljarinnar gleði, sem einkenndist mjög af leiknum "suck&blow" sem hefur einmitt tröllriðið flestum 14 ára afmælum frá því að amma var ung!

Á laugardeginum...

...skellti ég mér með Birki á Akureyri í þeim tilgangi að hitta Helga bróðir. Þau gömlu voru líka stödd þarna með Björgvin litla bróður minn sem var að keppa í fótbolta og urðu þetta því miklir fagnaðarfundir! Við Helgi gerðum okkur ferð í Bogann til þess að hvetja litla bró til dáða, og svei mérþá ég held að það hafi bara virkað! að minnsta kosti stóðu Leiknismenn sig eins og hetjur og höfnuðu í 3 sæti á mótinu, sem að mér finnst bara nokkuð vel af sér vikið! :)
Þegar við komum aftur í bústaðinn seinni partinn var liðið byrjað að hita upp fyrir kvöldið, og ekki leið á löngu þar til að fólkið fór að streyma í partý. Um 9 leytið var ekki þverfótað fyrir fólki í bústaðnum. Það var mikil stemmari, en á tímabili var fólksfjöldinn orðinn töluvert of mikill! En þökk sé Jónsa&co í hljómsveitinni í svörtum fötum fór fólk nú fljötlega að hypja sig á ball. Ég man eki nákvæmlega hvernig eða hvenær ég tók þá ákvörðun að fara á ballið, en ég veit að ég fór Írisar og alls laus inn á Húsavík. Að sjálfsögðu tókst mér með einstakri kænsku minni að komast ókeypis á ballið, og ég sá ekki eftir því. Að minnsta kosti hefði ég ekki viljað borga fyrir þá litlu emmtn sem að þetta ball var! Allt of mikið af litlum dauðadrukknum krökkum sem vissu ekki í hvorn fótinn þau áttu að stíga og duttu því þar af leiðandi um sjálf sig og aðra. Þar var fremst í flokki litla systir Birdittu okkar Haukdal, og tókst henni að detta í fangið á ansi mörgum me-strákum. Hver veit nema meðlagskröfur í nafni Haukdal-fjölskyldunnar fari að berast um bréfalúgur austfirksra yngissveina í náinni framtíð? ;)
Eftir að Jónsi og félagar höfðu gefist upp á því að standa fáklæddir á sviðinu var stefnan svo tekin aftur á Kaldbakskot. Það tók nú sinn tíma því að til einhverra handalögmála kom nú þegar út var komið. Ég sá mér ekki fært að standa úti í norðanvindinum öllu lengur og leitaði því eftir hlýju í bifreið laganna varða! Þeir buðu mig velkomna og ég hafði það bara nokkuð huggulegt í félagsskap þeirra, og sú staðreynd að úti stóð hópur fólks skjálfandi á beinunum fannst mér gera mig bara nokkuð sérstaka! Heppin!
Eftir að hafa sitið nokkra stund í bílnum kemur ungur maður aðvífandi og bankar í örvæntingu á rúðuna hjá Skarphéðni (bílstjóranum). Skarphéðinn skrúfaði niður rúðuna með með miklum tilþrifum, en jafnframt þeim tignarleika sem lögreglumanni sæmir og spyr um erindi. Strákurinn, sem að ég held að heiti Elmar, ég veit allavega að hann er í ME og er busi, segir að það sé nú þannig komið fyrir honum að hann sé alveg að skíta á sig og spyr hvort að hann gæti fengið að frakvæma þá bráðnauðsynlegu athöfn á lögreglustöðinni. Þetta vakti að sjálfsögðu mikla kátínu hjá okkur sem að í bílnum vorum og Skarphéðinn tilkynnti okkur að þetta væri líklega sú besta fyrirspurn sem hann hefði fengið á vakt. Eftir að þeir höfðu vísað honum veginn á lögreglustöðina og ég var um það bil að jafna mig eftir langt og mikið hláturskast, tók alvaran við, að ég hélt. Talstöðin fór í gang. Röddin í talstöðinni tilkynnti "Já mér sýnist þeir vera farnir að hópast aftur í kringum bláa rostunginn". Ég hló innra með mér að því hversu lagnir Húsvíkingar væru við að gefa stöðunum í bænum nöfn eins og "Blái rostungurinn", og afréð að spyrja hvað í ósköpunum það væri. Þórhallur, sá sem sat fram í, benti mér á að þeir kölluðu þennan stóra þarna í bláa bolnum sem stæði 21 á "bláa rostunginn". Þarna hélt ég að lífi mínu væri lokið, svo mikið þurfti ég að hlæja að þeirri staðreynd að Blái rostungurinn var í raun Bjössi okkar Ben, og taldi lögreglan á Húsavík hann greinilega stórhættulegan. Eftir að hafa jafnað mig aðeins leiðrétti ég þennan misskilning þeirra og sagði þeim að Bjössi væri besta skinn og þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af honum. Þá fyrst féllust þeir á að yfirgefa svæðið, svo að við söfnuðum liðinu saman og þessar elskur rúntuðu með okkur út í bústað, þar sem gleðin hélt áfram langt fram á morgun. Ég ætla ekk að hafa þetta lengra að sinni, en ég á nú eflaust eftir að skjóta inn einhverjum skemmtilegum Húsavíkursögum á næstu dögum...

Smá samantekt í lokin:

Bílstjóri helgarinnar: Ragnar, þrátt fyrir að hafa fest rútuna!
Skemmdarvargur helgarinnar: Óskar á djúpavogi, fyrir að hafa sett fjarstýringuna í örbylgjuofninn!
Húfa helgarinnar: Þórunnar-húfan sem Antonía gaf mér!
Gleraugu helgarinnar: Gleraugun sem Íris hnuplaði frá kjarnorkuversstarfsmanninum!
Flugfreyja helgarinnar: Ingunn
Fullorðni flugmaður helgarinnar: Kristján Orri
Geirfinnur helgarinnar: Hildur Karen sem hvergi fannst!
Lögreglumenn helgarinnar: Skarphéðinn, Þórhallur og Hjálmar
Rostungur helgarinnar: Bjössi Ben
Haukdal helgarinnar: Allir sem höstluðu litlu systir Birgittu Haukdal
Kúkur helgarinnar: Kúkurinn hans Elmars
Drykkur helgarinnar: Mývatn
Kynþokki helgarinnar: Mr. Middleton
Þakkir helgarinnar: Fær Guðný á Húsavík fyrir að bjarga lífi mínu með bros á vör

þangað til næst....

Þórunn þunn, þreytt og þjáð, en ánægð eftir helgina!

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?