<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Framfarir...

Jöminn ég er að rifna úr stolti! Haldiði að ég hafi ekki gert enn eina tölvutengdu uppgötvunina, all by myself!! Ég og blogger.com erum alveg að verða bestu vinir get ég svarið. Allavega þá tókst mér á einhvern yfirskilvitlegan hátt að setja linka inn á síðuna mína!! Þið sem voruð svo lánsöm að fá að vera með vona ég að séuð sátt við mig, og þið hin sem ég er að gleyma eða hafið eitthvað við þetta að athuga eða viljið bara hrósa mér fyrir þessa miklu kunnáttu, get in touch! Gauti, hafðu það!! ;)

Þórunn - sýnir framfarir!

|

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Aftur ein í kotinu

Nú er Helgi farinn aftur á sjóinn og ég orðin ein á ný. Þau gömlu eru væntanleg á klakann á morgun og ég sé því fram á að þessum sjálfsþurftarbúskapi mínum fari því að ljúka í bili. Ég er búin að vera heima veik í 3 daga, ekkert sérstaklega gaman, en ég er þó að hressast og ætla að drífa mig af stað í vinnuna á morgun aftur.
Hildur Ósk vinkona mín var að koma austur í heimsókn, hún er búin að vera í Frakklandi að spóka sig í allt sumar. Það var frábært að fá hana, enda orðið ansi langt síðan við höfum hist! Við stefnum á stanslaust djamm í bænum í vetur, en fyrir ykkur sem ekki vitið það þá er stelpan trúlega að leggja land undir fót og ætlar að eyða vetrinum í borginni. Það er þó ekki alveg orðið pottþétt, en kemur allt í ljós á næstu dögum. Ég mun tilkynna ykkur það um leið og ég fæ fréttir um málið.
Sandra og Máni voru hérna hjá mér í kvöld og við elduðum okkur þennan líka dýrindis kjúkling. Máni minn stækkar heldur betur með hverjum deginum, og ég hugsa að það líði nú ekki á löngu þar til kappinn fer að labba. Nú styttist í stórafmæli hjá þessari elsku og ætli maður verði ekki að fara að huga að gjafakaupum hvað og hverju! Ótrúlegt hvað tíminn líður, ég get svarið það mér finnst eins og hann hafi fæðst í gær.
En ég hugsa að það sé best að ég hætti þessum skrifum mínum í bili og reyni að bjarga því sem bjargað verður í húsinu mínu áður en liðið mætir á svæðið. Þangað til næst...

Þórunn - á faraldsfæti?|

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Söfnum fyrir Skjá einum....?

Það bankaði maður nokkur upp á hjá mér í kvöld og spurði hvort ég vildi taka þátt í söfnun til þess að fá Skjá einn í fjörðinn. Ég rak upp stór augu, enda veit ég ekki betur en að umrædd sjónvarpsstöð rukki ekki fyrir þjónustu sína. En viti menn, nú á aldeilis að nýta sér fótboltabullur og þá aðdáendur Enska boltans sem ekki eru þeirrar gæfu aðnjótandi að ná Skjá einum. Og þá spyr maður sig, hvað kostar bitinn? Jú, litlar 900.000 kr þurfa að safnast úr vösum bæjarbúa til þess að við getum fengið að njóta þessarar "fríu þjónustu", en Skjár1 ætlar að sýna þau almennilegheit að borga helminginn í uppsetningunni, en alls kostar dæmið 1.800.000.
Ég persónulega get vel hugsað mér að bæta Skjá einum við úrval okkar af sjónvarpsstöðum, en það er ekki eitthvað sem ég mun leggja kostnað í, frekar en þeir sem hafa Skjá einn nú þegar. Mér finnst þetta ekkert annað en mismunun vegna búsetu, og frekar en að ýta undir hana mun ég láta mér þær sjónvarpsstöðvar sem ég hef í augnablikinu nægja

Þórunn - uppreisnarseggur

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?