<$BlogRSDURL$>

laugardagur, nóvember 13, 2004

Þroskamerki og barnalæti

Nú eru liðin næstum vika síðan lífsstílsbreytingin var ákveðin. Ég hef strax fundið fyrir áhrifum hennar og líkar bara ágætlega. Auðvitað er eitthvað eftir af vitleysingnum í manni, en þroskaða hliðin hefur bara fengið að njóta sín meira síðustu daga. Ég fór á kaffihús á fimmtudaginn og skaut samferðamönnum mínum skelk í bringu með því að panta mér kaffibolla. Ég veit ekki hvað það er, en fólk virðist ekki geta tekið ákvörðun minni um breyttan lífsstíl og markmið í lífinu alvarlega.

Ég lenti í ansi sniðugu atviki þetta kvöld sem ég tel vert að deila með ykkur sem ennþá nennið að lesa um líf mitt. Ég stóð á gangstéttinni og fylgdist með hörðum snjóbardaga hinu megin götunnar milli Hildar, Tedda og Gauja. Skyndilega sé ég hóp af eldra fólki í fínni kantinum nálgast. Ég veitti þeim enga sérstaka athygli, en áður en ég náði að átta mig hafði einn maðurinn í hópnum beygt sig niður og hnoðað snjóbolta, sem hann grýtti í mig af miklu afli. Ég vissi ekki hvað var í gangi, en var fljót að hugsa og grýtti vel útilátnum bolta á móti, beint í skallann á manninum, sem reyndist vera enginn annar en Ingvi Hrafn sjónvarpsmaður. Honum virtist finnast þetta mjög sniðugt og áður en ég vissi af vorum við komin í hörku snjókast. Fólkið sem hann var með var löngu stungið af þegar bardaganum lauk, og ég var löngu hætt að geta staðið í lappirnar af hlátri. Svona getur verið gaman fyrir tvær þroskaðar, fullorðnar manneskjur að finna barnið í sér.

Í gærkvöldi ákvað ég svo eftir langa mæðu að drífa mig ásamt fríðu föruneyti í bæinn og jafnvel vinna í leitinni í leiðinni. Ég drakk mjög hóflega og það vottaði varla fyrir áhrifum þess litla áfengis sem ég innbyrti, enda var það ekki ætlunin. Kvöldið heppnaðist með ágætum, þrátt fyrir að hvorki gengi né ræki í leitinni að eiginmanni. Ég er þó ekki á þeim buxunum að gefast upp.

Þroskuð Þórunn

|

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Nýtt líf

Ég er farin að sjá það sífellt betur að ég er vanhæfur bloggari með öllu. En það er ekki það eina sem ég er vanhæf í. Ég er til dæmis farin að finna til mikillar vanhæfni á sviði drykkju og skemmtana. Ég er með öllu vanhæf óreglumanneskja.
Aftur á móti tel ég mig mjög hæfa eiginkonu og hæfari húsmóðir finnst varla. Ég hef því ákveðið að snúa við blaðinu. Ég hef sagt skilið við fyrri lífshætti og hef nú ákveðið að hella mér af miklum móð út í leit mína að lífsförunaut. Drykkja, djamm og annað í þeim dúr er ekki lengur hluti af mínu lífi. Ég er farin að sjá fyrir mér framtíð í einbýlishúsi í Fossvoginum ásamt hundi mínum og manni, en ég stefni jú beint í átt að altarinu um leið og leitin hefur borið árangur. Ég býst við að það verði fljótlega, boðskort í veisluna verða send út tímalega, því get ég lofað.
Hildur mín hefur ákveðið að standa við hlið mér og taka þetta stóra skref samferða mér. Já, Hildur Karen hefur einnig hafið makaleit, þó ekki jafn róttæka og ég þar sem hún hefur ekki sagt skilið við Bakkus, enn. Ég hef þó trú á stelpunni og vona að hún átti sig. Öl er böl.

Meira um málið síðar...

Þórunn - alveg makalaus

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?